Af slá - Sérsaumur - Bíspók

Af slá - Sérsaumur - Bíspók

Þegar ákveðið er að kaupa sér jakkaföt koma þrír valmöguleikar til greina, þ.e. föt af slá, sérsaumur eða bíspók. Í þessari grein förum við yfir hvern flokk, kosti og galla við hvern flokk og hvað hentar hverjum og einum. Það er ekkert eitt réttara en annað, hver flokkur á sinn stað og sín tilefni.


 

Af slá


Af slá er einfaldlega að labba inn í búð, máta föt og kaupa þau sem passa best á þig. Þetta er lang algengasta leiðin til þess að kaupa föt og lang einfaldasta, en ekki fyrir alla. Þar sem föt af slá eru fjöldaframleidd eru þau vanalega ódýrasti valkosturinn þegar kemur að jakkafötum en þó auðvitað með undantekningum. Vörumerki, efni, og vinna hefur allt áhrif á verð fatanna. Vandamálið rís þó nákvæmlega af því að þau eru fjöldaframleidd og reyna framleiðendur að láta fötin passa á sem flestar líkamstýpur sem einfaldlega virkar ekki fyrir lang flesta, t.d. með því að hafa ermagötin víðari, svo að sem flestir komist í jakkann, sem endar á því að jakkafötin hreyfast „ekki rétt“ með klæðandanum. Fjöldaframleidd föt eru ástæðan fyrir því að margir menn telja jakkaföt með óþægilegasta fatnaði í fataskáp þeirra, því fötin eru ekki gerð á þá heldur eftir stöðlum í tískublaði. Þar að auki eru föt af slá oftar en ekki algjörlega gerð úr eða blönduð við manngerð efni, t.d. pólýester eða rayon, sem er bæði verra fyrir klæðandann þar sem slík efni anda verr og með tímanum byrja þau að glansa á mjög „gerviefnalegan“ hátt. Þar að auki eru þau mjög óumhverfisvæn þar sem ein mesta mengun á jörðinni er skyndi-tíska.

Áhrif skyndi-tísku á heiminn.

 



Höfum þó á hreinu að hægt er að fá gullfallegar flíkur af slá úr flottum og náttúrulegum efnum sem passa á mann og ef þau passa ekki alveg er hægt að láta klæðskera eða saumafólk breyta þeim fyrir þig. Gallinn við það er samt sá að það er ekki hægt að breyta öllu við tilbúnar flíkur, því hlutföllin verða oft bersýnilega röng. Ef maður styttir jakkann of mikið eru vasarnir of nálægt botni hans, ef þú þrengir buxur of mikið verða rassvasarnir of nálægt hvorum öðrum eða of nálægt síðum þínum (og hægt væri að skrifa um svona dæmi í allan dag). Ef staðan er sú, ættu menn klárlega að hoppa á það en oftar en ekki sér maður menn í fötum af slá þar sem ermarnar eru annað hvort of stuttar, of síðar eða jakkinn of axlabreiður, lærin á buxunum of þröng eða hvað það má nú vera.





Sérsaumur

Ath. vert er að minnast á að þegar rætt er um sérsaum hérlendis er það að oftar en ekki í raun verið að tala um mælisaum. Fyrirtæki hafa markaðssett mælisaum sem sérsaum í dágóðan tíma og því miður verður ekki aftur snúið þegar kemur að þessum skilgreiningum. Því skrifum við hér sérsaumur, þó í raun er verið að ræða mælisaum.

 

Hjá flestum virkar sérsaumur þannig að kúnninn fær að velja efnið í fötin, þar að auki samsetningu efnisins t.d ull, hör, eða blöndur. Þegar efnið er valið er hönnun fatanna hafin þ.e. smáatriði og andi fatanna. Hjá flestum er hægt að velja mismunandi tegundir boðunga, vasa, uppábrot á skálmar, tölur og lengi mætti telja. Þegar fötin eru hönnuð fer fram mæling á herramanninum svo fötin passi sérstaklega á hann. Gríðarlega fá föt eru saumuð hérlendis vegna kostnaðar svo lang flest fyrirtæki útvista saumavinnuna til annarra landa sem leiðir til lengri biðtíma en að kaupa af slá, vanalega 4 vikur hjá okkur. Ef þú þarft föt í flýti hentar sérsaumurinn þér mögulega ekki. Þegar fötin koma til landsins fer vanalega fram mátun og eftir mátunina eru fötin annað hvort afhent eða þau eru lagfærð eins og þarf og afhent eftir lagfæringu. Flest sérsauma fyrirtæki bjóða kúnnum sínum að velja úr hundruði efna úr ýmis konar efnum t.d. ull, bómull, pólýester, kasmír eða hör til að nefna þau vinsælustu. Það sem sérsaumur og bíspók hafa að auki yfir af slá er umhverfisvænni framleiðsla. Ekki eru skapaðir 30 eins jakkar í misstórum stærðum í von um að þeir seljist og fara síðan á útsölu ef þeir seljast ekki. Aðeins eru skapaðar þær flíkur sem hafa nú þegar verið hannaðar af kaupandanum. Það þýðir engar útsöluvörur sem enda stuttu síðan á haugunum.




Bíspók


Bíspók er toppurinn á geiranum og er því mjög dýr í framleiðslu. Hér er verið að tala um margar mátanir með klæðskera þar sem tekið er tillit til allra smáatriða á líkama kúnnans t.d. hvort önnur öxlin sé lægri en hin, hvort önnur höndin sé lengri, hvernig hendurnar eru þegar þær hanga slakar og áfram mætti lengi telja. Verðið á bíspók fatnaði kemur ekki aðeins vegna fínna efna heldur vegna tímans sem sérmenntað fólk leggur í vöruna. Þetta orsakar það að svona verslunarháttur lifir ekki hér á landi. Hann finnst aðeins í stórum borgum og eru þar Lúndúnir fremstar í flokki og Rómarborg þar á eftir. Einnig er vert að minnast á að víðsvegar í Asíu finnast betur verðlögð bíspók föt þó gæðin séu ekki nálægt því að vera þau sömu. Það er draumur margra jakkafata áhugamanna að eignast sín eigin bíspók föt frá virtustu húsum geirans. Líkt og í sérsaum fá menn að hanna sín eigin föt með klæðskeranum, þ.e. velja efni, smáatriði og anda fatanna.


Niðurstaða

Ef þú þarft jakkaföt í flýti fyrir atvinnuviðtal, eða hvað annað sem gæti skyndilega komið upp á, eða tímir einfaldlega ekki að leggja út of mikið fyrir fatnaði, eru föt af slá eflaust einfaldasti kosturinn. Hins vegar, ef þú ert tilbúinn að taka klæðaburðinn þinn á næsta þrep er sniðugara að hugsa hlutina aðeins lengra og borga aðeins meira fyrir föt sem þú færð að hanna með leiðsögn, eru úr gæðaefni, sem passa á þig og eru gerð til að endast og eldast með þér.


Af slá

Kostir

  • Ódýrast
  • Enginn biðtími
  • Einfaldast

Gallar

  • Færð ekki alltaf fötin sem þú ert að leita að
  • Slæmt fyrir umhverfið
  • Passa ekki fullkomlega
  • Vanalega verri gæði nema nóg af pening sé eytt
  • Þarf yfirleitt að breyta eftir á

Sérsaumur

Kostir

  • Færð að velja allt sem snertir fötin
  • Mælt fyrir hvern mann sérstaklega
  • Vandaðari vinnubrögð í framleiðslu
  • Hægt að panta fleiri föt eftir fyrstu mælingu
  • Töluvert ódýrara en Bíspók
  • Föt sem passar betur á þig endast betur og eru þægilegri

Gallar

  • Tekur tíma í framleiðslu
  • Tekur vanalega 2-3 mætingar fyrir jakkaföt
  • Dýrara en af slá
  • Ekki eins  nákvæmt og bíspók

Bíspók

Kostir

  • Gert frá grunni fyrir hvern og einn einasta kúnna
  • Tekið tillit til líkamsbyggingu t.d. lafandi axlir eða fatt bak o.fl.
  • Færð að velja allt sem snertir fötin
  • Flest allt handgert af klæðskera meisturum
  • Listaverk

Gallar

  • Mun lengri afhendingartími
  • Vanalega 3 mátanir + fyrsta pöntun
  • Mun dýrari fjárfesting
  • Fæst almennt ekki á Íslandi

 

 

Bókaðu tíma eða kynntu þér ferlið á sérsaum.

Aftur í Herramannaskóla greinar